Viðtal í Fréttablaðinu í dag.

July 9, 2011

Unnið stíft akkúrat þessa dagana.

Valgerður Sigurbergsdóttir matráðskona í jarðvinnufyrirtækinu Skútabergi á Akureyri fagnar tveimur stórum áföngum í dag, sjötugsafmæli og fyrstu skóflustungu að húsi eina vinnuvélasafns Íslands, Konnasafns, sem tekin verður á Skútum í Hörgárdal klukkan 15. Safnið heitir eftir manni hennar, Konráði Vilhjálmssyni vélamanni sem lést skyndilega í febrúar síðastliðnum.

Þegar Valgerður er beðin að rifja upp sitthvað frá sínum dögum er hún fljót til svars: “Mínir dagar eru allir eins svo þetta verður einfalt. Síðan stóra áfallið reið yfir hafa þeir að minnsta kosti allir verið ósköp svipaðir.”

Valgerður ólst upp í hópi tíu systkina í Svínafelli í Nesjum. Þar runnu Hornafjarðarfljótin beggja megin við bæinn. “Ég fór oft yfir Fljótin á hestum, í kláf og síðar bílum en þrátt fyrir þetta vatnauppeldi slapp ég við að þurfa að bjarga mér á sundi sem var gott. Það fóru nefnilega allir út á Höfn að læra að synda á ungdómsárunum nema ég, mér fannst ég þurfa að hjálpa mömmu með mjaltir og fleira og hef ekki enn haft tíma til að læra sund.

Ung kveðst Valgerður hafa verið send austur í Norðfjöð að hjálpa til á heimili og einnig norður í Skagafjörð að passa bróðurson sinn. “Þá strax var ákveðið að ég færi í húsmæðraskólann á Löngumýri. Það passaði til að þegar ég fór þangað, 19 ára, var ég búin að finna skagfirskan draumaprins og fór ekkert heim eftir það heldur flutti til hans að Ytri-Brekkum í Akrahreppi. Konráð var nefnilega í vinnuflokknum sem kom austur að brúa Hornafjarðarfljótin vorið 1960. Þetta var allt undirbúið einhvers staðar.”

Meðan börnin, átta talsins, voru ung kveðst Valgerður mest hafa sinnt heimilishaldi og búskap. “Stundum var ég líka að kokka í vinnuflokkum með Konráði og þess vegna urðu börnin snemma svo tengd vélavinnu. En á haustin var ég oft í sláturhúsinu á Sauðárkróki og ég vann við löndun líka hjá Fiskiðjunni. Svo var ég húsvörður í félagsheimilinu Miðgarði í nokkur ár en seinna gerðist ég ráðskona í fullu starfi hjá fjölskyldufyrirtækinu okkar Arnarfelli, sem fékkst við vegagerð og fleiri framkvæmdir víða um land.”

Ekki gerir Valgerður mikið úr eigin vinnuvélareynslu. “Ég var einu sinni eitthvað á ýtu við vegagerð á Háreksstaðaleiðinni. Það var komið fram undir jól, við hjónin vorum ein eftir í flokknum og veðrið orðið frekar kuldalegt. Þá fannst mér betra að taka þátt í jarðvinnunni en að hanga ein í búðunum.”

Nú eldar Valgerður handa 15 manns og sumum þeirra færir hún mat í malargryfjuna á Skútum. “Það er unnið svo stíft akkúrat þessa dagana,” er skýringin.

Smelltu hér til að sjá viðtalið í Fréttablaðinu.

 

gun (hjá) frettabladid.is

 

Skrifaðu athugasemd